mánudagur, júní 09, 2008

Gáta númer 13 -- riddle number 13

Hverjum er svo lýst:

"Hann tók konungdóm eftir föður sinn. Þá var hann tíu vetra gamall. Hann var allra manna mestur og sterkastur og fríðastur sýnum, vitur maður og skörungur mikill. Guttormur móðurbróðir hans gerðist forstjóri fyrir hirðinni og fyrir öllum landráðum. Hann var hertogi fyrir liðinu."


Lausnin á vísna-gátunni

Bóndasonur borinn var --> Einar (ég var borinn bóndasonur)
Buxur var til skifta --> (á) einar (buxur)
Flestar konur fráskildar --> (þær eru) einar
Fjölda ekki takmarkar --> einar (sex kindur)

Svarið er því: einar

sunnudagur, júní 08, 2008

Vetur konungur

Sælt veri fólkið,

hér er núna hávetur. Sá í fyrsta skipti snjó hér í borginni þegar ég fór í grillveislu hérna vestan megin í borginni (fjær sjónum). Já, það er alveg hægt að grilla þó að það sé snjókoma. Þetta var reyndar varla nokkuð sem hægt var að tala um - nokkrir sentímetrar sem staldra sjálfsagt ekki lengi við. En hérna þar sem við búum hef ég ekki séð snjó - enda búum við fimm hundruð metra frá Kyrrahafinu.
Nú er Carolyn búin að selja bisnissinn og við erum flutt í framendann á húsinu, sem er minni og leigan ódýrari. Það voru tvö herbergi undirlögð undir pilatesið í hinni íbúðinni en eftir að Carolyn seldi þurfum við ekki á þeim aukaherbergjum að halda. Hún fer núna að vinna hjá Contours, sem er líkamsræktarstöðin sem keypti bisnissinn hennar (öll tækin og kúnnalistann). Þessi líkamsræktarstöð er hérna í 10-15 mínútna færi, í hverfi sem kallast Ferrymead.
Ég er sjálfur að rembast eins og rjúpan við staurinn, nema ég er ekki að verpa eins og rjúpan - heldur er ég að reyna að skrifa eitthvað bull niður á blað. Það gengur svona upp og niður en hlýtur að hafast fyrir rest.
Svo fer að líða að áramótunum frumbyggja hérna á Nýja Sjálandi. En áramótin eru tengd við það þegar sjöstirnið birtist aftur á norðvestur himni rétt fyrir birtingu í endan maí eða snemma í júní. Sjöstirnið er kallað Matariki á máli Maori (frumbyggja) sem þýðir "augu guðs" (mata ariki) eða "lítil augu" (mata riki) og eru áramótin oft miðuð við fyrsta nýja eða fulla tungl eftir að Matariki birtist aftur á himninum.
Ekki býst ég þó við að skjóta upp flugeldum af tilefninu - enda yrði mér sjálfsagt stungið í steininn fyrir það og hæpið að það borgi sig (nema að það er sennilega hlýrra í fangelsunum en í íbúðinni okkar).
Hef þetta ekki lengra að sinni,
áramótakveðjur á Klakann.