sunnudagur, júní 08, 2008

Vetur konungur

Sælt veri fólkið,

hér er núna hávetur. Sá í fyrsta skipti snjó hér í borginni þegar ég fór í grillveislu hérna vestan megin í borginni (fjær sjónum). Já, það er alveg hægt að grilla þó að það sé snjókoma. Þetta var reyndar varla nokkuð sem hægt var að tala um - nokkrir sentímetrar sem staldra sjálfsagt ekki lengi við. En hérna þar sem við búum hef ég ekki séð snjó - enda búum við fimm hundruð metra frá Kyrrahafinu.
Nú er Carolyn búin að selja bisnissinn og við erum flutt í framendann á húsinu, sem er minni og leigan ódýrari. Það voru tvö herbergi undirlögð undir pilatesið í hinni íbúðinni en eftir að Carolyn seldi þurfum við ekki á þeim aukaherbergjum að halda. Hún fer núna að vinna hjá Contours, sem er líkamsræktarstöðin sem keypti bisnissinn hennar (öll tækin og kúnnalistann). Þessi líkamsræktarstöð er hérna í 10-15 mínútna færi, í hverfi sem kallast Ferrymead.
Ég er sjálfur að rembast eins og rjúpan við staurinn, nema ég er ekki að verpa eins og rjúpan - heldur er ég að reyna að skrifa eitthvað bull niður á blað. Það gengur svona upp og niður en hlýtur að hafast fyrir rest.
Svo fer að líða að áramótunum frumbyggja hérna á Nýja Sjálandi. En áramótin eru tengd við það þegar sjöstirnið birtist aftur á norðvestur himni rétt fyrir birtingu í endan maí eða snemma í júní. Sjöstirnið er kallað Matariki á máli Maori (frumbyggja) sem þýðir "augu guðs" (mata ariki) eða "lítil augu" (mata riki) og eru áramótin oft miðuð við fyrsta nýja eða fulla tungl eftir að Matariki birtist aftur á himninum.
Ekki býst ég þó við að skjóta upp flugeldum af tilefninu - enda yrði mér sjálfsagt stungið í steininn fyrir það og hæpið að það borgi sig (nema að það er sennilega hlýrra í fangelsunum en í íbúðinni okkar).
Hef þetta ekki lengra að sinni,
áramótakveðjur á Klakann.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með 35 ára afmælið Einar Örn,Tilbreyting að eiga afmæli að vetri til.Góð kveðja til ykkar frá Sauðárkróki