miðvikudagur, apríl 25, 2007

HJÁ BLÁMÖNNUM

Ein af sögum Afríku-Kobba

I
Á barkskipi sigldi ég suður í lönd.
Í særóti fórst það við Afríkuströnd.
Skipverjar fórust, um fimmtíu manns.
Ég fletti mig klæðum og synti til lands.
Og þetta var upphaf á frægari ferð
en fyrr var af nokkrum í heiminum gerð.
---
Ég stríplaðist þarna um ströndina einn.
Ég starði út í loftið - en sá ekki neinn.
Svo gekk ég frá hafinu, langt upp í land,
yfir leirþaktar auðnir og brunasand.
Um döggvaðar nætur ég sleikti hvern stein,
en steik mín á daginn var úlfaldabein,
og svo var þar logandi, helvíti heitt,
að það hálfa var nóg - en mig sakaði ei neitt.
---
Loks var ég kominn í laufgrænan skóg.
Á ljómandi aldin gullbjarma sló.
Þar festi ég blund ... en vaknaði við,
að vofði yfir höfði mér stórskotalið.
Hver hnot eftir aðra í höfuð mér datt.
Ég heyrði eitthvert ýlfur, á fætur ég spratt,
og dillandi apar, heill djöflaher
kom dansandi vitlaus og réðist að mér.
Þá grenjaði allt þetta gráðuga lið.
Ég greip þá í skottin - og sló þeim við
og lamdi þá dauða. Ég lék mér að því.
- Svo lagðist ég fyrir og sofnaði á ný.
---
Áfram ég ferðinni fagnandi hélt.
En framundan heyrði ég öskur og gelt.
Til hliðar var svarað í svipuðum tón,
og sjá, það stökk á mig hvæsandi ljón,
glorhungrað, kviðsmogið geysti það fram,
með gapandi kjaft og ógnandi hramm.
Ég greip það á lofti ... glíman var römm.
- Þá gerði ég þjóð minni enga skömm.
Um gervallan heim er hún flogin, sú frétt,
að ég felldi ljónið - og veittist það létt.
Og þegar það lá þar lamið í kös,
þá labbaði eg áfram ... Ég blés ekki úr nös.
---
Ég skil ekki, að neitt geti skert mína ró. -
Af skaðræðisfljótum á Afríka nóg,
og síst er það lygi, að sum eru breið,
því sum eru meira en þingmannaleið,
og satt er það líka, að sum eru ljót. -
Ég synti yfir mörg þessi skaðræðisfljót.
Þar komst ég þó oft í krappan dans,
en kom þó að síðustu heill til lands,
því kveif er sá maður, sem kveinar og flýr
einn kjaftvíðan nykur og þess konar dýr.
Margt kvikindi, sem er krókódíll nefnt,
hef ég kaffært og drepið, - og þá var mér skemmt.

II
Úr hávöxnum pálma eitt síðkvöld ég sá, -
Það var sótniðamyrkur, því nóttin skall á, -
að langt inn í skóginum bálköstur brann.
Ég breytti um stefnu, á eldinn rann.
Þá glumdu við hlátrar og öskur og óp.
Ég stóð allsber og vopnlaus í svertingjahóp.
Ég hopaði hvergi ... en hnykkti þó við
að horfa á allt þetta skrælingjalið
og sjá þar kjaft við kjaft, sem var spönn,
og kolsvartur mannætur glotta við tönn
og glyrnur, sem minntu á glóandi kol,
og grjótharða vöðva með leikni og þol.
Á sumum var andlitið skorið og skælt,
og skeljum og hringum í hörundið nælt.
Þeir höfðu ekki klæði, ekki belti né blað, -
það er best að tala sem fæst um það.
Á biksvarta kroppana blikinu sló.
Af bareflum höfðu þeir meir en nóg.

Ég hopaði hvorki um faðm né fet,
en fann, að þá langaði í mannaket.
Ég sá, að þeir undruðust svip minn og lit.
Það var sultur og lotning í orðsins þyt.
Ég stóð þarna nakinn og saklaus og sá,
að svertingjastelpurnar hvísluðust á.
Á skrælingja þessa ég starði um stund,
með storkandi svip og eggjandi lund.
Eftir örlítið hik fór að koma á þá kvik,
svo komu þeir öskrandi, svartir sem bik,
og bardaginn hófst ... Það var bölvans níð
að berjast einn við þann skrælingjalýð.
En þá kom mér aflið og áræðið vel.
Ég tók eldibrand logandi og sló þá í hel.

Á jörðina blóð þeirra draup eins og dögg.
Mig dró ekki um nokkur banahögg.
Og bæði var orustan blóðug og grimm.
Í birtingu lágu þeir sextíu og fimm.
En hinir, sem lifðu, þeir lutu að jörð.
Það laut mér í auðmýkt heil blámannahjörð.
---
Ég var tilbeðinn af þessum heiðingjahóp.
Ég var höfðinginn mikli, sem jörðina skóp,
hið lifandi afl, sem í eldinum býr,
andinn, sem skapaði menn og dýr,
mettaði soltna, var særðum hlíf,
gaf svörtustu mannætum eilíft líf.
---
Með svertingjum þessum eitt sumar ég bjó.
Í sígrænum skógum er hamingja nóg.
Suðræna nóttin er svalandi og hljóð,
en svertingjastelpan villt og góð
og gefur í auðmýkt brjóst sín blökk,
og blóðið er heitt - af ást og þökk.

Hjá blámönnum skóganna er boðorðið eitt:
að brenna af hatri og elska heitt,
að faðma sinn vin, drekka fjandmannsins blóð. -
Hún fylgir þeim lögum, hin svarta þjóð,
Og síst er hún verri en hið hvítbrjósta kyn,
sem kyssir sinn fjandmann, en drepur sinn vin.
---
Svo kvaddi ég svertingjans sígrænu lönd,
og sveit þerra fylgdi mér niður að strönd.
Þar lutu þeir allir í lotningu. Og sjá:
Ég lyfti höndum og blessaði þá.
Mig, almættið, skaparann, elskuðu þeir
og andlit sín huldu í sandi og leir.
Þá stökk ég til sævar og stakk mér á kaf
í hið stormkvika, ólgandi Suðurhaf
og synti frá strönd, út í skrautbúna skeið ...

Skipið var enskt og á norðurleið.

Eftir Davíð Stefánsson frá Fagraskógi

mánudagur, apríl 09, 2007

Gleðilega Páskahátíð

Sæll vert þú lesandi góður.
Það er flest með kjurrum kjörum hér á Nýja Sjálandi þrátt fyrir að páskahelgin sé nýyfirstaðin. Við treystum okkur ekki að vera heima yfir helgina því við búum við hliðina á kirkju - og við nenntum ekki að vakna upp við klingjandi kirkjuklukkanda á hverjum morgni. Þess í stað tókum við boði um skútusiglingu yfir helgina. Sigldum frá Lyttelton til Pigeon Bay - þar sem við vorum með höfuðstöðvar. Þaðan fórum við í gönguferðir á landi - tókum sundspretti í sjónum - fórum í siglingar þegar byr gaf - og sváfum og átum þess á milli í skútunni.

Veðrið var gott ef ekki er talinn með laugardagurinn - en þá rigndi aðeins og þó að byrinn hafi verið góður þann daginn þá var sjórinn nokkuð úfinn...
Myndirnar hérna eru af okkur Carolyn (efri myndin) við stýrið - og neðri myndin er af skútunni við sólsetur. Fleiri myndir eru væntanlegar innan tíðar á vefmyndasíðunni...
En alltjént - þegar allt er lagt saman - hin ágætasta helgi og góð hvíld frá hversdagslegum hlutum...