þriðjudagur, október 23, 2007

Þorrablót

Þorrablót var haldið um síðustu helgi hjá honum Mikael - og var held ég nokkuð vel sótt af íslendingum sem búa hérna í Christchurch. Nokkrar myndir er hægt að skoða hér af blótinu. Boðið var upp á hangikjöt, harðfisk, svið, hrútspunga, skötu, hákarl, kleinur, pönnukökur og kindakæfu svo eitthvað sé nefnt - og að sjálfsögðu íslenskt brennivín. Á efri myndinni er blótshaldarinn sjálfur, Mikael en neðri myndin er tekin þegar það var verið að verka kindahausana.
Kveðjur frá niðurheimum.

laugardagur, október 13, 2007

Gáta númer 9 -- riddle number 9

Nákvæmlega tveimur milljónum punkta er komið fyrir innan hrings með 1 tommu radius. Er til bein lína sem skiptir punktunum til helminga, með nákvæmlega eina milljón sitt hvoru megin? Ef svo er, útskýrið hvernig það er hægt?

An array of two million points is completely enclosed by a circle having a diameter of 1 inch. Does there exist a straight line having exactly one million of these points on each side of the line? If so, why?


Lausnin á tölu-gátunni

Þessi gáta reyndist auðveld og voru allir með rétt svar. En almenn lausn fæst með því að leysa fyrir x: (x-k)*k = (x-m)*m þar sem m = 7 og k = 11. Lausnin á þessum jöfnum gefur x = k + m = 7 + 11 = 18.

Answer to the digit-riddle is: 18.

sunnudagur, október 07, 2007

All Blacks úr leik á HM í rúbbí!

Frakkar voru rétt í þessu að slá nýsjálendinga út á heimsmeistaramótinu í rúbbí. Þetta er náttúrulega algjörlega óásættanlegt. Nýsjálendingar eru yfirleitt númer 1 á lista yfir bestu þjóðir í rúbbíi - en þeir hafa bara einu sinni orðið heimsmeistarar - og það fyrir 40 árum.
Reyndar voru ástralir líka slegnir út af englendingum - þannig að það er smá huggun fólgin í því, að því gefnu að englendingar tapi næsta leik.
Nú býst ég við að Suður-Afríka fari létt með að vinna þetta mót...

þriðjudagur, október 02, 2007

Carolyn þrjátíu vetra

Nú er Carolyn orðin þrítug (frá 24. september) og hélt hún mjög vel heppnað afmælispartí hérna um síðustu helgi. Þar voru allir uppáklæddir sem fígúrur úr Hollywood bíómyndum. Þar mætti meðal annarra Clint Eastwood, Gimli, sjóræningjar, Zorro og Zeta og meira að segja sjálfur Drakúla greifi auk margra annarra.
Allir virtust skemmta sér vel og má örugglega sjá umfjöllun um þetta Hollywood partí í stærstu slúðurblöðum heimsins næstu daga. Ég er að vinna í því að koma nokkrum myndum (sem ég nappaði af paparazz-unum) fyrir á myndalbúminu af þessu fjöri. Myndin sem fylgir með hérna er þegar Carolyn var að reyna að brjóta bláa nammikassann...

Mastersverkefni

Þá er ég búinn að senda inn þessa formlegu umsókn um mastersverkefni - þar sem ég þarf að gera grein fyrir verkefninu og hvað ég ætla að gera og hvernig ég ætla að gera það. En það á nú örugglega allt eftir að breytast mikið þegar ég fer af stað. Átti að skila því 1. október og ég skilaði því 1. október klukkan 22:15 (þannig að ég var a.m.k. á réttum degi!).
Mælingarferðin sem ég fór í um daginn heppnaðist vel og hérna má sjá smá fréttaskot á Tv3. Hérna er líka smá blaðaumfjöllun. Þeir sem stóðu að þessari mælingarferð er NIWA og mun ég gera mastersverkefnið í tengslum við þá og nota þessar mælingar í verkefninu. Myndin hérna er yfirlitsmynd sem sýnir staðina sem voru mældir (þ.e. snjódýpi og eðlismassi).
Set kannski inn einhverjar fleiri myndir af ferðinni ef ég kemst yfir einhverjar...