miðvikudagur, desember 27, 2006

Jólin í neðra

Jólin í neðra fóru í alla staði mjög vel fram. Það var skýjað og rigningsamt dagana fyrir aðfangadag þannig að maður varð minna var við að það væri hásumar. Við fórum í mat til Kiwifuglanna (sjá krækjuna til hægri) og voru þar líka gestkomandi Mikki og Rósí. Þar var snæddur gómsætur jólamatur sem samanstóð af kalkúni, humri, ..., og ís (eftir minni). Svo voru opnaðir pakkar og nokkrum kökum og kaffibollum bætt í magasekkinn.
Jóladagurinn fór svo í það að melta allan þennan mat og annar í jólum fór að mestu í að skila honum til baka í holræsakerfi Christchurch borgar.
Á myndinni hér til hliðar er Carolyn með sjálfan jólaköttinn sem heimsóttir okkur óvænt og það sést glitta í jólatréð í bakgrunni (og nokkra pakka).
Carolyn gaf mér fimm vestra í jólagjöf og er ég búinn að horfa á þá alla. Einnig er ég búinn að gera nokkrar krossgátur sem ég fékk að gjöf frá Króknum og hlusta á hljómdisk Baggalúts nokkrum sinnum. Við Carolyn fengum einnig góðar gjafir frá Mikka og Rósí (landslagsmyndabók af Nýja Sjálandi) og Kiwifuglunum (bók með gönguleiðum á Nýja Sjálandi). Það er því alveg ljóst að jólasveinninn hefur fengið upplýsingar um breytt heimilisfang frá því um síðustu jól.
Hef þetta ekki lengra að sinni - jólakveðjur

HELGAHAUGUR

Nálægt Miklavatni í Fljótum er Helgahaugur. Það er haugur Helga nafars landnámamanns. Í hann var eitt sinn grafið og sýndist þá þeim sem voru að grafa að Barðskirkja væri að brenna. Hættu þeir þá við, en þetta var missýning. Fóru menn svo aftur að grafa og sáu sömu missýning, en gáfu sig nú ekki að því. Þá sýndist þeim Miklavatn flóa upp í kringum allan hauginn og flúðu við það burt. Síðan hefir ekki verið í hauginn grafið svo kunnugt sé.

(JÓN ÁRNASON (2003) Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri III, bls. 351, Reykjavík, Bókaútgáfan Þjóðsaga.)

HVARFSHÓLL

Hvarfshóll er hóll einn kallaður nokkuð langt fyrir innan bæinn á Hjarðarhaga á Jökuldal. Eitt sinn vóru þar tveir menn á ferð -- var annar maðurinn forfaðir þeirra svokölluðu Eyjaselsbræðra í Hróarstungu -- og er þeir komu að hólnum sjá þeir þar liggja ósköpin öll af útbreiddu skarti til þerris ásamt öðrum munum. Óættfærði maðurinn vildi við engu snerta, en hinn tók hníf og klút, segja sumir. Nóttina eftir dreymir hann að kona úr Hvarfshólnum koma til sín og spyrja hví hann hafi hnuplað frá sér fé sínu og ennfremur mælti hún: "Það legg ég á þig að þú sjálfur skalt hálfviti verða og ætíð einhver einn í ætt þinni allt í níunda lið." Síðan er enn einhver brjálaður í þeirri ætt.

(JÓN ÁRNASON (2003) Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri III, bls. 67, Reykjavík, Bókaútgáfan Þjóðsaga.)

laugardagur, desember 23, 2006

"SEINAST MUN ÉG FLOTINU NEITA"

Kall nokkur settist á krossgötur á gamlaársnótt með öxi í höndum og einblíndi í egg hennar. Nú kom álfafólkið og fór að ávarpa hann og bjóða honum alla hluti, gull og gersemar, dýrindis klæði og krásir, þangað til einn býður hönum flot, þá segir kalltetrið: "Seinast mun ég flotinu neita," enda ærðist hann þá.

(JÓN ÁRNASON (2003) Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri III, bls. 177, Reykjavík, Bókaútgáfan Þjóðsaga.)

fimmtudagur, desember 14, 2006

SELURINN OG SKATAN Í LAGARFLJÓTI

Straumur heitir bær einn; hann stendur að norðanverðu á bakkanum á Lagarfljóti í Kirkjubæjarsókn. Fram undan bænum liggur skata ein í fljótinu. Hún hefur níu hala og er óvættur mikill. Gerði hún mörgum manni mein því þar er ferjustaður. Loksins kom þar kraftaskáld að og kvað hannn skötuna fasta niður við botninn í fljótinu. Síðan hafur hún engum mein gert. --- Það er til sannindamerkis um það hversu skata þessi er eitruð að svo bar við einu sinni eftir að hún var föst kveðin að sakamaður nokkur synti upp fljótið. Kom hann þá við skötuna með stóru tánni og varð honum kynlegt við. Hann fór þegar á land og sá að táin var svört og uppblásin. Hjó hann þá tána af þegar. Þessi vísa hefur verið gerð um skötuna:

Skatan liggur barðabreið
und báruglaumi,
snýr upp hrygg og engu eirir
undan Straumi.


Annar óvættur er sá í Lagarfljóti er margt mein gerði. Það er selur einn stór og mikill. Hann liggur undir fossinum í Lagarfljóti utar en skatan. Hann var og að lyktum kveðinn fastur við klettinn undir fossinum og þar liggur hann og má sig engum til meins hreyfa.

(JÓN ÁRNASON (2003) Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri I, bls. 636, Reykjavík, Bókaútgáfan Þjóðsaga.)

sunnudagur, desember 03, 2006

Læstum okkur úti

Sá ólíklegi atburður gerðist í gærkvöldi að við Carolyn fórum samtímis út um sitthvorn útganginn á húsinu, bæði lyklalaus og við skelltum bæði í lás. Þetta verður að teljast mjög ólíklegur atburður því að svo mörg skilyrði þurfa að vera uppfyllt samtímis! Eftir að hafa gengið úr skugga um að allir gluggar voru kyrfilega læstir og strompurinn of þröngur virtust góð ráð ansi dýr! Það var hins vegar auðveldara en ég hélt að brjótast inn - í gegnum baðherbergisgluggann - með því að taka glerið úr glugganum. En glugginn hefði ekki mátt vera mikið minni og um tíma hélt ég að ég væri fastur - en ég átti eftir að borða kvöldmat og það er sennilega ástæðan fyrir því að ég slapp í gegn.

Myndin hérna fyrir ofan er tekin af nýsjálenskum rollum á beit - ef einhver skyldi vera í vafa.

Kveðja,