fimmtudagur, ágúst 16, 2007

Innskráningu í skólann loksins lokið

Jæja, þá er ég loksins búinn að skrá mig í skólann - ætti alveg skilið að fá einhverjar einingar fyrir það - þetta er svo skrítið ferli. Þarf að hlaupa á milli skrifstofa með yfirlýsingar og ljósrit í þríriti lon og don. En nú er þetta loksins komið í höfn.
Mjög líklega kominn með mastersverkefni líka - það fjallar um snjóalög í Jollie dalnum (sem er norðan við Pukaki-vatn). Var reyndar búinn að sækja um að gera verkefni á Suðurskautinu - en því prógrammi var frestað um óákveðinn tíma þannig að ég slapp við það. Var svo eiginlega búinn að fá annað verkefni varðandi Hooker jökulinn þangað til þetta Jollie-verkefni dúkkaði upp. En það á víst að taka helling af mælingum af snjódýpi og eðlisþyngd í Jollie-dalnum og ég kem með að vinna með þessar mælingar í mínu verkefni. Veit ekki nákvæmlega hvað það er sem ég kem til með að gera en mér dettur helst í hug að reikna út hvað hægt er að búa til marga snjókarla þar á hverju ári...
Veturinn er merkjanlega farinn að láta undan ágangi sólarinnar - a.m.k. koma mjög góðir dagar inn á milli - þó að næturnar séu enn frekar svalar - sérstaklega innandyra.
Var að fá nýsjálenskt byssuleyfi út á það íslenska um daginn - svo nú vonast ég til að geta farið í einhverja veiðitúra með Ingó, Hilmari og fleirum skotglöðum. Fórum um daginn á dádýraveiðar en sáum ekkert dýr - kannski vegna þess að við vorum að segja ýktar veiðisögur allan tímann og höfum eflaust fælt öll dýrin í burtu. Stefni að því að setja einhverjar myndir af þeirri ferð inn á vefalbúmið fljótlega.
Svo vil ég minna á skoðunarkönnunina hér á síðunni um hverjir verða næstu heimsmeistarar í rúbbí - en hér á Nýja Sjálandi er gríðarlegur áhugi fyrir þessari keppni þar sem Nýsjálendingar hafa ekki orðið heimsmeistarar í 40 ár - og finnst mörgum löngu vera kominn tími á að það gerist!
Ekki meiri fréttir í bili,
aufgehilsen...

3 ummæli:

Ólafur Jens Sigurðsson sagði...

Af hverju er þessi Jolli dalur valinn? Hvað er svona sérstakt við hann? Hverju vilja menn ávinna með þessum mælingum?

Bara svona að pæla :-)

Skildu líka eftir einhver dýr þarna fyrir alla aðra, skjóttu nú ekki allt til helvítis :-)

Einar Örn sagði...

Jollie dalurinn er eiginlega alveg jökullaus - og hugmyndin er víst að safna gögnum um dreifingu snævar í þessum dal og nota upplýsingarnar í SRM (snow runoff model).
Þá geta menn ekki kennt jökulleysingum um ef niðurstöður SRM eru skrítnar...

Þarna varstu aðeins of seinn á þér - ég var að enda við að skjóta allt til helvítis...

Ólafur Jens Sigurðsson sagði...

Hmm .. ekki hefur nú verið mikið að skjóta ... þetta komst ekki í neinar heimsfréttir. :-)